Verið að opna í Mývatnssveitinni

Sigurjón Bjarni me stöngina, 55 cm urriði í háfnum.

Veiði hófst á urriðasvæðunum í Laxá í Mývatnssveit í morgun. Enn höfum við engar tölur, en höfum þó heyrt að menn hafi verið að setja í vel haldna og væna urriða.

Við heyrðum aðeins í Bjarna Júlíussyni sem opnar jafnan með sonum sínum. „Við erum á Brettingsstöðum sem er ekki besta svæðið. Það hefur verið rólegt hjá okkur,“ sagði Bjarni, en sendi okkur stuttu síðar mynd af syninum Sigurjóni Bjarna með 55 cm urriða úr Brotaflóa. Við getum vonandi fært lesendum frekari fréttir um opnunina þegar líður á daginn. Skilyrði eru ekki slæm, sumarhiti og hægur vindur.